Hannað fyrir fólk: af hverju nytsemisrannsóknir skipta máli
Af hverju virka sum öpp, vefsíður eða hugbúnaður svo vel en annað alls ekki? Við hjá Júní teljum að lykillinn að góðri hönnun felist í að láta nytsemisrannsóknir leiða veginn. Hér fyrir neðan förum við yfir helstu aðferðir sem við notum í stafrænni vöruþróun.

ÁSA BRYNDÍS GUNNARSDÓTTIR

Hvað eru nytsemisrannsóknir?
Nytsemisrannsóknir (e. usability testing) er yfirheiti yfir aðferðir til að komast að því hvernig þróa má stafrænar vörur þar sem þarfir og upplifun notenda eru leiðarljósið. Hönnunarhugsun og rannsóknarferlar duga þó skammt ef ekki er jafnframt hugað að mannlega þættinum – tilfinningagreind, samkennd og lagni í samskiptum. Þótt það gæti hljómað einfalt felst í þessum rannsóknum markviss aðferðafræði og með henni fæst mun dýpri innsýn en með stuttu kaffispjalli.
Af hverju hönnum við ekki bara og krossum putta?
Það er gott að vita af hverju við gerum þessar rannsóknir yfirhöfuð áður en við förum í smáatriðin. Þótt það sé vissulega fyrst og fremst til þess að sannreyna ágæti og nytsemi vörunnar þá er líka skynsamlegt að byrja snemma að rannsaka og ítra stöðugt vöruna. Þannig gefast fleiri tækifæri til að slétta fyrr úr öllum hnökrum og uppgötva hina ýmsu vankanta áður en varan kemst í hendur notendanna. Þetta getur sparað bæði tíma og peninga. Þessar rannsóknir eiga sér líka helst stað í nokkrum lotum yfir þróunartímann og nýtast best þegar þær eru hluti af ítrandi hönnunarferli, þar sem við lærum, prófum, betrumbætum og endurtökum. Nytsemisrannsóknir eru því lykilþáttur í hugbúnaðarþróun, þótt það sé því miður ekki eins sjálfgefið og maður myndi halda.
Helstu aðferðir til að skilja notendur betur
Það má flokka flestar nytsemisrannsóknir í tvo meginflokka: eigindlegar og megindlegar. Þetta eru ekki mjög gagnsæ orð og þýða að annað hvort er verið að afla einstaklingsbundinna gagna eða tölulegra gagna - einfaldlega notendaviðtöl og kannanir. Viðtöl eru frábær til að kafa djúpt í upplifun og skilja betur af hverju fólk hugsar eða hagar sér á ákveðinn hátt á meðan kannanir grípa breiðari mynstur, auk þess að bera saman stærri hópa notenda. Það hvaða aðferð hentar best getur verið mismunandi milli verkefna hverju sinni.

Mannlega hliðin: spjallað beint við fólk
Í notendaviðtölum situr hönnuðurinn ásamt einum viðmælanda þar sem farið er djúpt í efnið. Meðferðis hefur hönnuður frumgerð af hönnun (prótótýpu) sem notendur fá að skoða og eiga við sjálfir. Hönnuðurinn mætir með undirbúið handrit af verkefnum, spurningum og atriðum sem þarf að skoða og rannsaka fyrir hverja vöru. Stundum situr annar aðili með, oftast annar hönnuður eða verkefnastjóri, sem skrifar niður glósur á meðan. Viðtölin eru samt líka tekin upp (þ.e. hljóð og skjáupptaka) svo hægt sé að hlusta aftur á þau áður en lokaskýrsla er tekin saman ef þörf er á að rýna nánar ákveðin atriði spjallsins.
Þessi aðferð hefur verið mikið notuð hjá okkur í Júní. Við reynum að fá að minnsta kosti fimm notendur í slík viðtöl snemma í vöruþróuninni og helst aftur síðar. Þessi fjöldi kemur beint úr rannsóknum Nielsen Normann Group (leiðandi sérfræðingar í nytsemisrannsóknum), sem halda því fram að hægt sé að koma auga á allt að 85% af vandamálum með því að spjalla við allavega fimm notendur. Það borgar sig svo sannarlega að staldra aðeins við og hlusta á notendur áður en forritun hefst og þannig leggja traustari grunn að áframhaldandi vöruþróun.
Þessi viðtöl krefjast vissulega smá undirbúnings og taka iðulega ca. 45–60 mínútur. Einn helsti þröskuldurinn er að finna rétta fólkið. Það þarf bæði að vera til í að koma í spjall og jafnframt henta þessari tilteknu vöru (t.d. myndum við helst vilja fá rafbílaeigendur í spjall ef varan tengist hleðslu á rafbílum). Þá reynum við að fá fólk með ólíkan bakgrunn, aldur og reynslu - allt eftir því hvernig notendahópur vörunnar er líklegur til að vera.
Hin grunnforsendan er svo að fá fólk á staðinn og nota frumgerðina með okkur en þannig sjáum við með eigin augum hvernig fólk beitir sér, hvar það er að smella á skjánum – og smellir ekki á. Þá sjáum við jafnframt strax öll viðbrögð í svipbrigðum og líkamstjáningu, lítilli og smárri, gremju eða ánægju, og skráum hjá okkur. Þessi atriði er aðalástæða þess að við viljum fá einn notanda í einu í viðtal en það getur verið erfitt að grípa þessi viðbrögð ef margir mæta saman, fyrir utan að fólk er iðulega opnara og hreinskilnara þegar það er í prívat spjalli.
Ein helsta kúnstin við að framkvæma slík notendaviðtöl er að spyrja réttu spurninganna og hrapa ekki að ályktunum. Við sækjumst eftir hreinum og „hráum“ viðbrögðum notenda og þar er einna mikilvægast að spyrja opinna spurninga en ekki leiða þá á þær niðurstöður sem við höfðum mögulega gert ráð fyrir. Þarna getur ýmislegt komið fram sem er ekki augljóst og jafnvel eitthvað sem getur sett grunnforsendur í hönnuninni alveg á hvolf – það er samt betra en að uppgötva gallann eftir á!
Þegar tölurnar tala: stóra myndin
Viðtöl ein og sér eru ekki nóg. Það borgar sig alltaf líka að taka saman spurningalista til að grípa stóru myndina. Þá er mikilvægt að hafa vel valinn og fjölbreyttan notendahóp til að fá breiða kortlagningu af notendaupplifuninni. Markhópurinn þarf að vera samsettur bæði af notendum sem eru virkir í notkun þessarar vöru en líka ná til þeirra sem hafa takmarkaðri reynslu. Þannig næst betri samanburður. Menntun, tæknikunnátta, aldur, reynsla og kyn eru auk þess breytur sem stuðla að áreiðanlegri og hlutlausri greiningu.
Aðalmálið er að semja skýran spurningalista með mælanlegum, samanburðarhæfum svörum. Samanborið við viðtölun fást niðurstöður mun hraðar með þessari aðferð, þar sem hægt er að senda spurningalistann til fjölda fólks samtímis. Hér má síðan jafnvel nota sama spurningalista yfir lengra tímabil og líka bera saman ólíkar niðurstöður sem gætu hafa breyst með tímanum.
Að taka réttar ákvarðanir sem byggjast á gögnum en ekki giski
Niðurstöður nytsemisrannsókna eru teknar saman í skýrslu og glærupakka fyrir viðskiptavini en þær nýtast til að forgangsraða ýmsum umbótum og styrkja ákvarðanatöku. Það er líka auðveldara fyrir okkur að sannfæra hagaðila um mikilvægar breytingar, enda getum við þá vísað í mælanleg gögn frá markhópnum.
Þessar rannsóknir eru að okkar mati lykilþáttur í vandaðri vöruþróun og hönnun á stafrænum lausnum. Reglulegar nytsemisrannsóknir dýpka bæði skilning á vörunni en efla sömuleiðis notendamiðaða menningu í teyminu sem hefur áhrif á fjölda ákvarðanna. Hér höfum við þó aðeins snert á meginaðferðunum og það má að sjálfsögðu kafa töluvert dýpra í þessi fræði – sem væri jafnvel efni í aðra færslu.
Ef þú hefur áhuga á að kynnast fleiri aðferðum eða leita aðstoðar við að framkvæma rannsóknir fyrir þína vöru, ekki hika við að hafa samband við okkur í Júní.